Færsluflokkur: Bloggar

Flandur

Flandraði á dögunum inn í stóra bókabúð og rakst þar á skipulagsdagbók sem ég stóðst ekki mátið að kaupa, því mér fannst hún sameina með eindæmum vel þá tvo kosti sem æskilegt er að slíkt áhald beri með sér: annars vegar notagildi og meðfærileika hvað varðar stærð, niðurröðun og umbrot og hins vegar naum og ýkjulaus fagurfræði í ytri hönnun. Og ekki nóg með að hún hafi síðan verið mér passívur en þarfur þjónn við að koma reglu á daglegt amstur mitt, heldur hef ég nýverið gefið því gaum að í horn hverrar opnu (sem rúmar hver fyrir sig skipulega allar vikurnar í árinu) eru ritaðar knappar en spaklegar tilvitnanir í látin gáfumenni sem hafa einhvern tímann á að giska um og eftir menningarbyltingar í þróun vestræns þekkingarsamfélags rutt sér leið gegnum orðakra tilveru sinnar og fundið eða glatað í snörpum þeytivindum viðfanga og athugenda eitthvað sem einhverjir, ef ekki þeir sjálfir, hafa heimfært upp á hugtakið tilgang. Alltént hef ég lesið yfir þann orðfögnuð sem sótt hefur inn á opnur janúarmánaðar og undrast, eins og týnd sál sem blaðar af rælni í Biblíu á nafnlausu hótelherbergi og verður skyndilega snortin af ókunnu en hlýju ljósi, að það sé eins og þessi litla bók sé að reyna að taka þátt í samræðum við mig um hluti sem ég hef velt fyrir sjálfum mér frá áramótum. Ég birti hér þessar tilvitnanir í lauslegri þýðingu:

 

Núna er þessi gamli góði tími sem við horfum til baka á eftir tíu ár.

-Peter Ustinov

 

Dyggð hverrar manneskju mælist í einsemdinni sem hún er þess megnug að umbera.

-Friedrich Nietzsche

 

Maður þráir ekki bara vera hamingjusamur, maður þráir að vera hamingju samari en aðrir. Og það er svo erfitt, því við teljum aðra vera miklu hamingjusamari en þeir eru í raun og veru.

-Charles-Louis de Montesquieu

 

Helvíti eftir þennan heim? Hvílíkt ímyndunarafl!

-Emanuel Wertheimer

 

Þetta síðasta skaut svo upp óvænt eins og svart dufl þegar ég og vinkona mín í einhverri óljósri afleiðingu, eftir frásögn hennar af hlaupum í myrkri, flettum í gegnum nýju bókina og lásu upp tilvitnanir af kerskni. Tilvitnunin reyndist nefnilega með ólíkindum vel viðeigandi svo að spaugsemi okkar fjaraði út, því vinkona mín hafði einmitt tjáð mér að nágrannakona hennar hefði tjáð sér, í viðleitni sinni til að lina skömm vinkonunnar yfir að hræðast myrkrið, sem var ítem orsök allra hlaupanna, að ótti hennar gæfi til kynna að hún byggi yfir ímyndunarafli, því eins og hún sagði, og þýði ég nú meint ummæli nágrannakonunnar: Hugrekki er til merkis um skort á ímyndunarafli, sem má skilja sem svo að þeir einir séu hugrakkir sem þekkja ekki hætturnar. Þetta samræmist ekki mínum skilgreiningum á fyrirbærinu, þvert á móti og mun ég innan skamms gera grein fyrir rökum skoðunnar minnar. Það sem er hins vegar satt við fullyrðingu þessa fulltrúa nafn- og andlitslausra (smá)borgara í afskiptum þýskum þorpum, í þessum þorpum sem gætu rétt eins ekki verið til þegar maður er ekki staddur í þeim eða heyri á þau minnst, er að óttinn býr í myrkrinu, í hinu ókunna sem ekki hefur (enn) sýnt sig, komið í ljós. Það hræðilega sem við þekkjum ekki með fullri upplýsingu og/eða yfirsýn, gæti átt sér stað, birst á ófyrirsjáanlega vegu þannig að við getum engan veginn varist.

Nýverið las ég í bók eftir smámælta slóvenann Slavoj Zizek, í kafla þar sem fjallað var sérstaklega um þessi áhrif möguleika í rökfræði á tilfinningalíf, breytni og gervi mannskepnurnar, skemmtilegt og afbyggjandi viðhengi við heimspeki Donalds Rumsfelds um þrjá flokkar þekkingar, sem hann kynnir í eftirfarandi mynddæmi:
http://www.youtube.com/watch?v=_RpSv3HjpEw&NR=1

Zizek vill meina að hér hafi Rumsfeld gleymt að nefna fjórða flokkinn, þann mikilvægasta: um hluti sem við vitum ekki að við vitum, það sem við bælum, áföll og ótti sem hefur ómeðituð og órökleg áhrif á atferli okkar og framkvæmdir; uppspretta hjátrúar ranghugmynda og vænissýki.

Að þessu sögðu vil ég freista þess að orða mína merkingu á hugtakinu hugrekki: að hugrekki felist í því að horfast í augu við óttann, viðurkenna tilvist hans og halda aftur af honum í sjálfum sér en ekki láta hann stjórna sjálfum sér og öðrum gegnum mann sjálfan.

Nú gæti svo verið, án þess að ég sé um það handviss, að einhverjir sem mér eru nákomnir geti bent mér á dæmi um þessi skoðun mín sé ekki iðkuð í mínu lífi og ef svo er, þá hlýt ég að verða að fallast á það, ég hlýt að þurfa að vera óhræddur við að breyta sjálfsmynd minni, sem og við allar breytingar, við mögulegar breytingar, við að vera skyndilega staddur á einhverjum stað án þess að það sé hægt að skilgreina hann sem áfangastað.

Ætli það hafi ekki verið í tengslum við akkúrat þetta að ég gerði á dögunum lítils háttar tilraun, framdi enga hetjudáð svo sem, en brá mér í það sem sumir tala um sem súrealiskan göngutúr, en Þjóðverjar kalla flanieren og ég er nokkuð viss um að geta þýðst sem fandur, að flandra. Ég lagði þá upp frá heimili mínu án tilgangs eða markmiðs og kannaði landslag myrkursins, og meðan ég hugleiddi gárur á yfirborðsfleti hversdagslífs míns gekk ég niður fáeinar götur, bak við fjölbýlishús, inn í ruslageymslu og aftur út á götu og yfir götu og inn í garð, þar sem var stór tjörn og tré og styggar kanínur og á einhverjum tímapunkti sem ég kann ekki að nefna því ég var ekki með úr, áttaði ég mig á því að ég vissi ekkert hvar ég var, eiginlega ekki, þangað til ég sá ljósaskilti á þaki kaffihúss á lofti þrettán hæða íbúðablokkar og eftir fáeinar mínútur var ég komin á fjölfarna og hellulagða göngugötu sem margar verslanir standa við, meðal annars stór bókabúð sem ég fór inn í og rakst á skipulagsbók sem ég stóðst ekki mátið að kaupa.


Beldni

Hef uppgötvað afbragðs mixtúru gegn fýlu. Böð. Brá mér nefnilega í sund um daginn. Það var ekkert varið í það.

Gegn beldni duga önnur meðöl.


Nýjar slóðir

Það er óhætt að segja að þessi vetur hafi verið umhleypingasamur hvað varðar íverustaði mína hvort tveggja stafræna og hlutlæga.

Fyrst ber að nefna það sem snýr beint að lesendum þessara skrifa minna, ég hef enn og aftur breytt um slóð, þar sem alþýðlegt viðmót síðu minnar freinarsson.bloggar.is hvarf skyndilega og án nokkurra skýringa. Mér tókst hins vegar með lagni að komast inn á stjórnborð vefsins og ná í þær færslur sem ég hef þar vistað. Hef ég nú birt þær hér á nýju síðunni. Þess fyrir utan er Moggablogg meira meinstrím sem gæti stuðlað til þess að einhver lesi það sem ég birti.

Í öðru lagi verða veraldlegir mannabústaðir mínir síðasta misseri að teljast ófáir. Ég hef flutt úr Vesturbænum til Berlínar, aftur til baka ef svo óvarlega má komast að orði því ég dvaldi aðeins rúman mánuð á Íslandi áður en ég flutti aftur til Þýskalands, hingað til Giessen, þar sem ég gerðist svo ólukkulegur að búa á þröngum Stúdentagarði í tvo mánuði eða þangað til ég rauk út með miklu búrókrasísku fjargviðri og tók strætó hingað niður á Steinstrasse, þar sem ég sit núna í góðu yfirlæti í göngufæri við fljótið og kvíði því að flytja á ný. Eftir um það bil mánuð þarf ég nefnilega að snúa aftur til Íslands. Þar bíður mín ekki íbúð, ekki enn sem komið er, en nú á síðustu dögum virðast vera komnar skriður á þau mál sem lúta að því að koma í veg fyrir frekari hreyfingu og flutninga. 

Ég hef í félagi við stelpurnar Evu og Vilborgu, bekkjarsystur mínar, leitað að íbúð í Reykjavík og það er útlit fyrir að Vilborg hafi fundið eina slíka. Ég vil hins vegar ekki kasta álögum á þá málahagi með frekari innistæðulitlum fagnaðaryfirlýsingum.

 Téðir aðilar komu og heimsóttu mig í Giessen í nóvember. Það þótti mér vænt. Saman könnuðum við allt það besta sem bærinn hefur upp á að bjóða, skoðuðum skólann minn, drukkum kaffi og fórum að gröf vísindamannsins Konrads Röntgens - tvisvar. Á lokadeginum fórum við til Frankfurt og sáum þar tónleika hinnar víðfrægu sveitar Boney M, með upprunalega meðliminn Liz Mitchell í fararbroddi. Það var óborganlegt, vægast sagt.

Frá heimsókn Evu og Vilborgar til Giessen

 


14/1 2008: B.A.


Vinna að B.A. ritgerð minni við LHÍ hefst um leið og ég hef lokið þessari færslu.
Ekki seinna vænna.
Þetta verður önnur B.A. ritgerðin mín, en eins og kunnugt er hef ég nú þegar unnið mér inn bakalárgráðu í Íslensku.
Óhætt er að gera ráð fyrir að þetta sé seinni B.A. ritgerðin sem ég skrifa í þessu lífi. 

12/1 2008: Jólin kvödd í Giessen

















  

10/1 2008: Listi handa uppgjafa stílistum til málamiðlunar í tímabæru atvinnuleysi.

eftir Evu Rún og Friðgeir.


1. Fnjóskadalsheiði eins og raun ber vitni og aðrir staðbundnir áfangastaðir.

2. Lavander ilmar sem hestsdraumur.

3. Tollfrjáls perlufesti hefur ávallt reynst reglulega prúður aðskotahlutur í trúðshjarta.

4. Húðlitaður leikfimibolur gæfulausrar framakonu varpar ljósi á félagsmótandi misbresti í fari millistéttarfjölskyldna, einkum þegar faðirinn stuðlar að hópsöng.

5. Viðsjárverður atburður átti sér stað milli tveggja greindra sirkushesta.

6. Fryggð og fólska hefur löngum haft tærandi áhrif á silfur.

7. Peningar þess sem telur að dósent í tölvunarfræði telji áberandi hversu stuttir nemendur deildarinnar séu þrátt fyrir takmarkanir og lögboðnar lágmarksstærð, renna undantekningarlaust í sjóð málefna forvitina barna.

8. Stærilæti sjómanna hefur löngum kítlað dömurnar þrátt fyrir sefsýki, reiðuleysi, briskirtilsmein, tannhirðu og önnur vandkvæði átakanlegra sjómannsskyldna sem jafnan koma fram undir vissum sólstöðum.

9. Kjarni sílis er oft erfiður fram úr hæfi.

10. Framborinn snittubakki glaðværs snittugerðarmanns sýnir best lífsuppsprettu hins sólbrúna og grunlausa hamingjumanns.

  

8/1 2008: Eva og Friðgeir bjuggu til lista í flugvél

Í kringum áramót er hefð fyrir því að semja lista yfir eitt og annað. Á leið okkar yfir Atlantshafið fyrir fáeinum dögum sömdu ég og Eva vinkona mín eftirfarandi lista:

Listi um atriði sem gætu valdið titringi á samkomu þar sem bíræfnir athafnamenn koma sér í friðarástand með ýmsum leiðum.

1. Skapaofsi vegna ókunnugs skófatnaðar meðlims samtakanna.

2. Helber sönnun á tilvist yfirskilvitlegra aðila og ófyrirgefanlegra yfirlýsinga.

3. Ótímabært upphlaup háttsetts marskálks sem hlustar nánast ófrávíkjanlega á barnsgrát til þess að finna átyllur fenjulegra boðhátta.

4. Sætisbök þeirra sem óhræddir vega og meta tímann sem niðurhol skapað til þess að þenja hugtakið rými.

5. Flótti ákveðinna manna frá samleiginlegum kunningja sem bítur í skaldarrendur lágkúrlegrar dægurmenningar.

6. Málsháttur sá er öllum öðrum sem eiga aðild skákar: hvergi verður ógæfan brauð í auga skrattans.

7. Minning um ylhýra hellu þess aðila sem í ógáti lagði skóreim langa meðfram bolluvendi.

8. Afbrigðissemi aðila úr innsta hring sem lítur hýrum glirnum á aðra meðlimi stjórnarinnar og fleytir þunglama kerlingum yfir yfirborðsfleti nýja borðsalarins.

9. Taugaveiklun húsdýra samhliða blæðingum.

10. Hegðunarmynstur sem einkennist af húsgagnaflutningum.

30/12 2007: Stíflueyðir

Fljótlega eftir komu mína til Íslands varð ég þess var að baðvaskur á heimili mínu var stíflaður þannig að eftir hvert skiptið sem íbúar hirtu á sér tennurnar flaut hvít tannkremsfroða ofan á í töluverðan tíma meðan brúnleitt vatnið sogaðist hægt, hægt niður pípurnar, frekar hvimleitt vandamál, einkum í ljósi þess að stíflur sem slíkar eru að öllu jöfnu afleiðingar þess að líkamshár safnist saman í liðamótum, vandamál sem búast má við í baðkörum og sturtubotnum, og þá kannski óþarfi að gera veður út af, en það er öðru máli að gegna með baðvaska, eða það er mín tilfinning sem er svo sem ekki nema lauslega á rökum og reynslu byggð því ég hef litla  reynslu af pípulögnum en þykist engu að síður kunna að leysa stíflur, hef nefnilega í gegnum kynni mín af reynslumiklum húsmæðrum lært að ákveðin tegund af stíflueyði sem einnig má beyta sem almennu hreingerningarefni (og ég nefni ekki á nafn því ég hef ekki af því neinar tekjur) skoli slíkum kýlum út á sjó með slíkri endemis efnamengun að fólki er ráðlagt að vera í þykkum gúmmíhönskum meðan það handfjatlar brúsann sem hlýtur að vera hræðilegt fyrir vistkerfi sjávar en gerir heimilið svo miklu notalegra og spurði ég því sambýlisfólk mitt hvort þetta úrræði hefði verið reynt og þau sögðust hafa reynt það, eða það er að segja annað þeirra tjáði mér að hitt hefði tjáð sér að hann hefði reynt án árangurs, sem ég trúi en ég dreg í efa að dönsku kunnátta hans sé upp á marga fiska því að þegar ég gætti að brúsa sem ég hef átt síðan í vor þegar ég leysti stíflu í baðinu var nákvæmlega helmingurinn eftir og samkvæmt leiðbeiningum á brúsanum ber manni að hella helmingnum af innihaldi brúsans ofan í hina stífluðu pípu, sem var einmitt það sem ég gerði í vor sem þýðir að ef sambýlisfólk mitt hefur fylgt leiðbeiningum þá ætti hann að vera tómur, eða er það ekki, það fannst mér a.m.k. rökrétt og ákvað að reyna aftur, að hella öllu sem eftir var í brúsanum niður pípuna og sjóða líter af heitu vatni sem ég hellti í pípuna eftir að stíflueyðirinn hafði verkað í u.þ.b. tvær klukkustundir. Aðgerðin bar tiltlaðan árangur. Í kjölfarið rennur allt ljúflega.

Svona segi ég frá hlutum sem hafa áhrif á líf mitt, frá vendipunktum og hvörfum.

Gleðilegt nýtt ár. 


28/12 2007: Af brúðuheimilum

Nýlega fór fram skemmtun í skólanum mínum í Þýskalandi þar sem nemendur og kennarar fögnuðu væntanlegum jólum með sýningum á misalvarlegum atriðum, nefndum gjörningum - jólagjörningum, oftar en ekki með satírísku ívafi, gagnrýni á störf og starfsemi skólastofnunarinnar framsett á karnivalískan máta. Flestir voru á því máli að þetta árið hefðu farið fram leiðinlegustu jólagjörningar í manna minnum, og raunar hefðu aðeins tvö atriði verið nógu skemmtileg til að réttlæta að áhorfendur væru staddir í sætum sínum en ekki undir sæng heima hjá sér. Þar ber fyrst að nefna söngatriði þar sem maður á ofanverðum þrítugsaldri fagnaði sinni síðustu þátttöku á jólaskemmtuninni eftir 8 ára nám við stofnunina, flutti My way með breyttum texta. Nemandinn var í bleikum buxum. Í seinna atriðinu var ég þátttakandi. Ég og dönsk vinkona mín sem einnig stundar nám við skólann höfðum ákveðið að setja saman atriði sem túlkaði árekstur reynslu okkar af nýjum heimkynnum við norrænan uppruna okkar, þ.e. einhvers konar kómískan núning milli okkar og hinna, sem jafnframt myndi leiða okkur saman inn í sameiginlegan hugmyndaheim þar sem virkni íróníu og andæfinga er ljós. Eftir bollaleggingar ákváðum við að spegla áhorfendur í skandanavískri andstæðu sinni, hinu norræna hinu, og að vandlega íhuguðu máli lá það ljóst fyrir að fátt væri meira pervers á þessum slóðum en að leika senu úr Brúðuheimili Ibsens. Við vönduðum okkur að vera í atferli og limaburðum eins natúralísk og borgaraleg og mögulegast væri unt svo harmleikur og alvarleiki verksins kæmist vel til skila í þessu stutta broti þar sem Nora segir Torvaldi að hjónaband þeirra hafi silgt í strand. Stuttu áður en ég steig á svið hugsaði ég sem svo að þetta ætti engin eftir að skilja, að kannski ætti grínið ekki eftir að komast til skila nema að við merktum það með einhverjum hætti - fólki gæti hreinlega þótt þetta bara nokkuð góð leiklist sem í þessu samfélagi afbyggingar og framúrstefnu heitir vond leiklist. Raunin var sú að fólk tók andköf af hlátri og þurfti við stundum að gera hlé á leik okkar svo línurnar týndust ekki í stærstu hláturgusunum. Eftir sýninguna kom kollvikahár prófessor og sagði við mig: Þér hafið mikla hæfileika sem gamanleikari. Sem ég veit ekki hvort ég get tekið sem hrósi því ég las bara línur og reyndi að vera alvarlegur.

Í öðrum fréttum ber það hæst að ég er kominn til Íslands í jólafrí og hef gætt mér á mat, veigum og vinfengi síðustu daga.
Og erfingi vina minna Ylfu og Davíðs er kominn í heiminn. Þeim vil ég óska til hamingju.

Góðar stundir.

20/12 2007


Friðgeir Einarsson á heimili sínu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband