Færsluflokkur: Bloggar

Garfield án Garfield

 

 

 

 

 

http://garfieldminusgarfield.tumblr.com 


Verk

Hef lítið bloggað að undanförnu eins og raun ber vitni. Meðan hagkerfisbrakið hefur hrunið samfara hækkandi vöruverði, viðbjóði og vonleysi í þjóðarsálinni, sem lýsir sér meðal annars í sprengingu í ránum sem framin eru með lifrarbólgusmitssprautunálum, hef ég bara verið inni að ditta að litla húskofanum mínum. Páksafríið átti rétt eins og vanalega að nýtast til ýmissa starfa, en í þetta skiptið varð það áþreifanlegra en oft áður að ég hef ætlað mér um of og þarf þess fyrir utan að fara í frí af og til rétt eins og annað fólk, einkum upp á síðkastið þegar árin virðast bara hellast yfir mig eins og þau fái borgað fyrir það (kreppuár gera nánast hvað sem er fyrir peninga). Ég er haldin því oflæti að halda að ég sé ekki drjúgur með mig að öllu jöfnu en má engu að síður til með að grobba mig af þeim afköstum að hafa málað herbergisholu í kjallaranum. Ég og sambýliskonur mínar hyggjumst innrétta herbergið sem stofu. Verkið er í sjálfu sér ekki fullkomið, einstaka strokur hefðu mátt vera úthugsaðri, en bjástrið gaf mér rosalega mikið meðan á því stóð, einhvers konar hugarró, tilfinninguna að ég væri að gera eitthvað til einhvers. Svona segja sumir listamenn stundum líka, meira að segja ég, en ég vil ekki meina að það sem ég var að gera hafi verið list. Alls ekki. Ég er iðulega vís til að lýsa því yfir að ef ég stæði ekki í þessu listarugli væri ég húsamálari. Kannski sný ég mér að því þegar allt er farið til andskotans. Það væri miklu auðveldara fyrir mig. Húsamálari veit alltaf hvar hann á að byrja og hvenær hann er búinn og ef einhver vitleysingurinn spyr hann af hverju hann geri hlutina sem hann gerir þá veit hann það líka. Ég hugsa að hann myndi ekki hafa fyrir því að svara, yrði jafnvel bara dálítið hissa.

Nú er ég búinn að mála kjallarann.

Það er nokkuð ljóst.

Það er alveg á hreinu.

Það er öruggt, öruggt mál.

Páskafríið er ekki alveg búið strax. Nokkrir dagar eftir.

Ég var að hugsa um að fara þriðju umferðina en var ekki vissi hvort það þjónaði nokkrum tilgangi.

Mér segist samt svo hugur að ég verði ekki aðgerðalaus á næstunni. Frá því að ég flutti inn hef ég alltaf fundið ný verkefni sem þarf að leysa til að það sé bara hægt að vera í íbúðinni, bara vera heima. Meira að segja þegar maður heldur að maður sé kominn langleiðina, bætist eitthvað við, maður man eftir einhverju. Það þarf að taka til í geymslunni. Ég þarf að mála dyrakarma og hurðir og kaupa rafhlöður í reykskynjarana. Verkefnalistinn lengist með hverri útstrikun og maður er sífellt eitthvað að bjástra, sífellt eitthvað fyrir stafni. Elli og dauði eru einhvers staðar neðarlega á listanum.


Óframleiðni

Milli þess sem ég hef verið upptekinn, hef ég verið of latur til að skrifa um líf mitt og hugmyndir. Kannski væri mér hollast að hafa ekkert fyrir stafni svo ég vinni frekar að útgáfum og opinberum verkum.

Times are gonna change, yo.

Er ég nú kominn heim, og tek ég mér þetta atviksorð með mikilli ánægju og stolti í munn, land og byggingar hér á landi hugnast mér jafnvel betur en áður, einkum eftir það sem ég hef gengið í gegnum og verður lýst í eftirfarandi kveinsögu sem hefur þann boðskap að maður skyldi ávalt vanda vel til verks þegar eitthvað er pantað á netinu.

Á mánudaginn kl. 4 um morgun að staðartíma bar ég föggur mínar út á stétt fyrir framan heimilið mitt í Giessen, tók lykilinn af kippunu og lokaði á eftir mér. Föggur mínar reyndust hins vegar, eins og ég hafði haft áhyggjur af nokkra daga á undan, allt of þungar, þannig að ferð mín á lestarstöðina varði lengur en tímaáætlun hafði gert ráð fyrir. Þannig missti ég af lestinni til Frankfurt. Þetta var þó ekki alvarlegt vandamál, næsta lest skilaði mér ljúflega á flugvöllinn í tæka tíð og einni og hálfri klukkustund fyrir áætlaða brottför gekk ég í gegnum flugstöðvarbygginguna í átt að mínum terminal, framhjá stórri fjölskyldu sem ég geri ráð fyrir að sé eða hafi verið búsett í Bandaríkjunum, því um það bil sem ég leið hjá sagði kona á miðjum aldri, sem vænta má að hafi verið móðir þeirra barna og unglinga sem þar voru, "Times are gonna change, yo". Í huga mínum tók ég undir með konunni.

Nokkrum andartökum seinna leit ég yfir töflu með komu og brottfarartímum þar sem ritað var að vél Icelandair flygi fyrst frá Frankfurt um kl. tvö síðdegis, þ.e. eftir sjö og hálfa klukkustund. Ekki var tekið fram sérstaklega að um seinkun væri að ræða þó vitanlega væri um slíkt að ræða frá mínum bæjardyrum séð. Taldi ég nú, eftir að hafa gengið um skugga að þessar upplýsingar stæðust, að ég hefði skoðað rangan brottfararmiða, sem vitanlega var bjánalegur klaufaskapur en ég var samt feginn að hafa ekki misst af vélinni. Af eirðarleysi tók ég upp á því að opna tölvuna, spila kapal og taka til á desktoppinum í þá einu og hálfu klukkustund meðan rafhlaðan dugði. Þá hélt ég til baka að meginandyri flugstöðvarbyggingarinnar til að hafa upp á bakaríi til að versla morgunmat og gekk aftur framhjá fjölskyldunni; fjölskyldu meðlimirnir voru allir sofnaðir að konunni undanskildri sem hélt utan um tvö yngstu börnun og starði alvarleg út í tómið.

Ég fylgdist með starfsmönnum flugvallarins safna kerrum. Þannig leið tíminn. Þegar þrír tímar voru í brottför gat ég ekki meir og til að hafa eitthvað fyrir stafni gekk ég að innritunarborðinu um leið og það opnaði. Ég rétti fram vegabréfið mitt og eftir nokkur slög á lyklaborðið tjáði konan við innritunarborðið mér að ég væri ekki skráður. Ég var í undrun minni sendur að söluborði þar sem ég mætti annarri konu og átti sú ekki eitt einasta orð yfir því kæruleysi mínu að ferðast án tiltæks bókunarnúmer. Ég hafði því upp á almenningstölvu, fann bókunarnúmerið og fór aftur til konunnar sem þá hafði aðgætt hvort ég hefði átt flug daginn áður og komst að því að svo var alls ekki. Eftir að hafa slegið inn bókunarnúmerið sagði hún hins vegar: "Sérkennilegt, hér stendur að þér hafið átt nú í morgun flug frá Keflavík til Frankfurt. Sie waren heute morgen ein No-Show."

Ég greip um andlit mitt af skömm, andvarpaði og konan sagði, eins og til að hugga mig að flugið væri enn opið, ég gæti enn bókað far, en það myndi kosta mig 450 evrur. Ég sagðist ekki eiga annarra kosta völ en bað konuna um að bíða meðan ég hringdi í kortafyrirtækið mitt til að fá hækkaða heimild. Símaþjónustufulltrúar Mastercard reyndust allir uppteknir og ég fékk að heyra biðtón, "Óbyggðirnar kalla" með Magnúsi Eiríks og KK og um leið og ég heyrði textabrotið "ég veit ekki hvort eða hvernig eða hvenær..." skellti ég á. Ég nennti þessu ekki. Ég bað konuna um að athuga hvort það gæti verið að það væri næg heimild á kortinu. Þá hafði hún í millitíðinni hringt í aðalskrifstofu Flugleiða í Frankfurt og fengið þær upplýsingar að ég gæti borgað mun lægra verð sem uppbót.

Voru nú vandkvæðin að mestu að baki nema hvað að við vopnaleit í óhemju víðfemum handfarangri mínum fannst dúkahnífur, við inngöngu í vélina var ég beðinn um að hafa upp á rakvél í tösku og slökkva á henni, hópur handknattleiksmanna sem töluðu full mikið sín á milli um annars vegar saurlát og hins vegar McDonalds, hefði mátt vera betur þrifinn og þ.m. betur lyktandi, og vitanlega var henti það í fyrsta skiptið á ævi minni að leitað var að eiturlyfjum í töskunni minni vipð komuna í Leifstöð.

Lýkur hér umkvörtunarfrásögn frá því hversdagslega hryðjuverki sem ég hef framið á sjálfum mér. Hef ég nú endurheimt hamingjuna og þykir hún einhvers virði því um stund virtist hún fjarlæg og úr augnsýn.

Góðar stundir.


Í lagi

Þetta á að vera stutt bloggfærsla.

Í fyrsta lagi vil ég þakka fyrir alla sem sendu mér með einum eða öðrum hætti afmæliskveðjur á fimmtudaginn. Það þótti mér vænt um. Takk.

Í öðru lagi vil ég biðja þá sem hafa átt afmæli nýlega en ekki fengið neina afmæliskveðju frá mér senda vil ég biðjast afsökunar. Mér þykir það leitt. Fyrirgefið þið.

Í þriðja lagi vil ég deila því með ykkur að í nótt, í fyrsta skiptið dreymdi mig heilan draum (ef svo undarlega er hægt að komast að orði) á Þýsku. Þetta þykir mér mikilvægt skref, þó svo að þetta hafi borið við næst síðustu nóttina mína á meginlandinu. Mig hafði reyndar áður dreymt að ég talaði Þýsku í stutta stund, ég var staddur á neðanjarðarlestarstöð í Berlín og var vænissjúkur vegna þess að ég hafði ekki keypt mér miða í lestina, en það er iðulega háttur minn í þeirri borg. Þýðverskur maður í heimatilbúnum kjúklingabúning gaf sig á tal við mig og ég hikaði við að svara honum á hans tungu því ég óttaðist að miðavörður væri nálægur.

Draumurinn sem mig dreymdi í nótt tengdist þessum draum ekki neitt, nema ef vera skyldi að holdtækur líkami minn, sá sem svaf og dreymdi, var staddur í Brussel og hafði vegna skorts á miðavörðum tekið upp fyrri siði og ekki sett krónu í miðasöluvélar (með tilheyrandi vænissýki). Í draumnum varð sem sagt ekkert hik á tali mínu. Ég gekk um ganga skólans hér í Giessen og ræddi við fólk sem á vegi mínum varð og viðraði það vandamál að yfirvofandi heimferðð mín aftraði mér frá því að framkvæmda gegnumgangandi skrifstofugjörning næstu vikur. Að lokum réði ég í stöðuna fráfarandi skólabróður minn sem ég kann vel við og vorum við báðir tiltölulega sáttir.

Í fjórða lagi verð ég enn kominn með nýtt heimilisfang upp úr hádegi á morgun. Analógískur póstur ætlaður mér skal hér eftir sendur á Klapparstíg 12, 101 Reykjavík.

Góðar stundir. 


Die Behörde

Þar sem ég yfirgef bæinn í fyrramálið (og á aðeins afturkvæmd um eina nótt meðan ég bíð eftir flugvél) má gera ráð fyrir að performans minn í síðustu viku sé sá síðasti sem ég stend fyrir í Giessen þangað til annað kemur í ljós. Bar hann yfirskriftina - eins og þessi færsla - ,,Behörde" og var byggður á reynslu mína af innflutningsskrásetningunni við komuna mína hingað til lands í haust, en ferli það þótti mér fram úr hófi viðamikið eins og fram hefur komið í bloggi.

Hafði ég hug á að lýsa gjörningnum hér en nenni því ekki eins og stendur. (Í Þýsku, rétt eins og í mörgum öðrum málum, er áþreyfanlegur skortur á sögn sem dekkar hugsunina að nenna, hvað þá að nenna ekki.) 

Læt nægja að birta örfáar myndir svo ég sé byrjaður.

Útbyrðis

Innbyrðis


Giessen

DSC00366


Tilfelli

Ég og gangandi kominn vegur munum mikla þá alla sem striganum gangverk auka; hann síðarnefndi les sundurslitinn lögformlegan stundarfjórðung, frumlagið póststrúktúralísk líking, sem er ekki öllum áþreifanleg.

Haldgóðar staðreyndir

Eftir átta daga yfirgef ég Giessen. Eftir þrettán daga kem ég aftur til Giessen. Eftir fjórtán daga verð ég í Reykjavík.

Í dag og í gær

 Í dag á fyrrverandi sambýlismaður minn afmæli. Í kvöld heldur fyrrverandi sambýliskona mín honum veislu í gömlu íbúðinni minni. Fer vel því, því bæði eru úrvalsmenni.

Sjálfur hafði ég ástæðu til að fagna í gær, því þá var (svo framarlega sem ég veit) undritaður leigusamningur sem tryggir búsetu mína í miðborg Reykjavíkur næsta ár eða svo. Hafði ég hugsað mér að kaupa af því tilefni freyðivín en snerist hugur þegar í matvöruverslunina var komið því ég mundi skyndilega að sá drykkur finnst mér viðbjóðslegur. Í staðinn fjárfesti ég í aðeins dýrara rauðvíni en ég ber vana til og tók með mér í kvöldverðarboð. Var flaskan klædd bláum tausekk og þótti gestgjafa mínum þar um mikið til koma þótt bragðið væri ekki nema mátulegt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband