Færsluflokkur: Bloggar

www.fridgeireinarsson.com

ný síða/new page:

 

 

www.fridgeireinarsson.com

 

 

 

bkv./bg friðgeir


Sjónarhorn

Einhverjum gæti fundist október vera eins og febrúar en öðrum gæti sýnst vera allt annar mánuður. Meira ruglið, maður.

Suppumufsu


Uppgötvun

í dag fundum við Eva upp aðferð til að fara í sleik við frosna vísindakirkjusál. Það er erfitt að gefa leiðbeiningar um hvernig það á að gera það, satt besta að segja ómögulegt, en nauðsynlegt er að notast við rafmagnsknúinn töfrasprota. Hljóðrásina má heyra á nýinnbættum tónlistaspilara hér á síðunni, vinstra megin við meginmál.

Ný bambusmotta

Það er frekar lítil hreyfing á þessu bloggi hjá mér. Kannski maður fari bara að hætta þessu. Og þó. Ætli ég sé ekki bara að bíða eftir að eitthvað virkilega spennandi gerist. Það hefur ekkert sérstaklega spennandi átt sér stað síðustu daga. Og þó, ég keypti mér mottu á mánudaginn. Það gerist víst ekki á hverjum degi. Mig hafði vantað eitthvað á flöt í herberginu mínu og hugsaði að bambusmotta myndi passa vel. Svo ráfaði ég einhvern veginn inn í Byko á Fiskislóð og þar var bara verið að selja svona mottur. Þær voru að vísu dálítið dýrari en ég hafði hugsað mér, um 5000 kall stykkið, en ég hugsaði ,,nei, fjandinn hafi það, nú skal ég vera soldið impúlsívur" og ég skellti mér á helvítið. Svo bar ég hana alla leið heim á Klapparstíginn. Ég stoppaði oft á leiðinni og hló með sjálfum mér. ,,Ég er nú meiri geðsjúklingurinn" hugsaði ég og hló aðeins meira. Og nú er ég búinn að taka utan af henni og koma henni fyrir. Meira að segja búinn að rífa miðann af. Þetta verður ekki aftur tekið úr þessu. Ég er með vissar efasemdir, hún passar alveg og þetta er nákvæmlega það sem ég var að pæla fyrir þennan blett, en ég veit það samt ekki...jú, ætli ég geti ekki átt hana lengi, hún er úr mjög sterku efni. Kannski get ég komið henni í verð seinna ef ég skipti um skoðun. Og hey, þetta er að minnsta kosti góð saga. Það verður ekki metið til fjár.

Málflutningur sakbornings

Nágrannakona gestgjafa minna hér í bænum Giessen í Þýskalandi, sem ég heimsæki nú eftir nokkurra mánaða aðskilnað án þess að eiga hingað neitt ákallandi erindi, hefur borið fram kvartanir vegna nærveru minnar. Hefur hún séð mig úti í garði þar sem ég hef stundum snætt morgunverð, drukkið kaffi, lesið Kafka og amerísk glanstímarit, fylgst með íbúum hússins (henni þar meðtalinni) hengja upp þvott, sem og leikið mér við skítugann og óbilgjarnann kött sem venur komur sínar að þvottasnúrunum. Ekki veit ég til þess að upptalin atriði hafi verið konunni sérstakt áhyggjuefni (enda er hvorki um saknæma hegðun að ræða né heldur áhugaverða) fyrr en skyndilega að hjólið hennar hvarf án skýringa. Vill hún setja hvarfið í beint samhengi við heimsókn mína, þ.e.a.s. að ég hafi stolið því. Hún hefur ekki haft orð á þessu við mig, enda höfum við aldrei talað saman (og dreg ég í efa að af því verði úr þessu) en þess í stað krafið gestgjafa mína svara fyrir ófyrirleitni mína. Auk þess hefur hún gefið mér kalt og stingandi augnaráð eins og til að opinbera skuld mína, birta mér ákæru ef svo mætti komast að orði. Aðgerðir hennar bera ekki það sem ætla mætti tilætlaðan árangur því ég veit fyrir víst að ég er alsaklaus af öllum ásökunum, þvæ hendur mínar af þessum þögula tilbúnaði. Sönnunarbirgðin er því öll hjá konunni og er það mín skoðun að málflutningur hennar sé veikur en ef ég sker burt allar refjar er hann svohljóðandi (frá mínum bæjardyrum sér):

Útlendingur birtist skyndilega í íbúð nágranna.

Hjól hefur horfið.

=

Útlendingur varð valdur af hvarfi hjólsins.

 Finnst mér þessi aðleisla slæm og ekki til neins nema ef vera skyldi að minna á að taka fyrirbærunum eins og þau birtast eins framarlega og það er unnt án þess að skeyta við skynjun sína ósjálfráðum hugsunum. Þannig getur illa ígrunduð túlkun á atburðum oft leitt til að lausn verður enn vandfundnari en ella, og þ.m. stuðlað að enn frekari vanlíðan. Það sem gerðist var ekki annað en þetta:

a. Útlendingur birtist í íbúð nágranna.

b. Hjól hvarf. 

Að þessu sögðu tel ég vart hyggilegt að hafa málsvörn lengri enda væri ég sennilega sjálfum mér ósamkvæmur ef ég gerði meira úr þessari atburðarás en tilefni er til. Blanda ég nú lesendum mínum ekki meira í mín málefni en hvet þá þess í stað til að nota góðra stunda, þó að það sé vitanlega undir hverjum og einum komið. 


Mitt líf.

Í nýju tölvunni má gera alls kyns brellur. Til að mynda er hægt að ræsa hana og komast á tölvupóstinn á innan við mínútu. Það eru töl(v)uverð viðbrigði fyrir mig því á gömlu tölvunni tók oft 15 - 20 mínútur að framkvæma sömu aðgerð. Hvað ætlarðu að gera við gömlu tölvuna? spurði Vilborg og ég sagðist ætla nota hana til að gúggla hvar Hewlet og Packard búa, athuga hvort þeir séu enn á lífi og ef svo er þá ætla ég að fara til þeirra og berja þá til dauða með gömlu tölvunni.

Í nýju tölvunni er líka hægt að láta taka af sér myndir og það hef ég nú þegar gert.

Photo 7

 Í fljótu bragði mætti ætla að ég sé skýjum ofar þegar þessi mynd er tekin. Svo er alls ekki. Þetta er svona bakgrunnur sem er í forritinu. Ég er alls ekki skýjum ofar heldur heima hjá mér í stofunni að horfa á myndbandsupptöku af þýsri uppfærslu á Þremur systrum.

 

 

 

 

Photo 8

 Eins mætti halda að á þessari mynd sé ég staddur neðansjávar. Aldeilis ekki. Hér er um að ræða sjónrænar brellur. Ég er eftir sem áður með báða fætur á jörðinni.

 

 

 

 

 

Maður verður að vinna til að lifa, segir einhver persónan í Þremur systrum og eftir að hafa varið hartnær viku í aðgerðarleysi fer ég að hallast að því að það sé satt. En ég ætti svo sem ekki að kvarta; Anna Karenina les sig ekki sjálf og einhver verður verður að taka til á svölunum.


Líf annarra

Ég brá mér í sund áðan. Eftir böðin varð á vegi mínum maður á ganginum þar sem sundlaugagestir geyma skóna sína. Hann var klæddur í stuttbuxur, enda nokkuð hlýtt í veðri í dag eins og í gær, en að öðru leyti voru leggir hans berir og fæturnir hvíldu á handklæði á gólfinu. Maðurinn var nefnilega í óða önn við að bera einhvers konar smyrsli eða spritt milli tánna á sér, en óhætt er að gera ráð fyrir að tilætlun hans hafi verið að sporna við sveppum eða öðru fótmeini. Ákvörðun hans um að hafa gjörning sinn í frammi einmitt þarna fyrir allra augum er mér, eins og raunar svo margt annað í veröldinni, með öllu óskiljanleg, en engu að síður er tilhugsunin langt frá því að vera óbærileg. Kona sem einnig átti þar leið hjá virtist hins vegar vera á öðru máli því hún fullyrti að ,,þeim" (og átti þá sjálfsagt við manninn og hans líka) ,,ættu" að gera svona lagað inni í klefa. Maðurinn brást við með skætingi og stóð áfram fast á sínu. Ekki veit ég hverjar lyktir málsins urðu. Við þetta er svo sem engu að bæta.

Innland

Bloggið mitt liggur niður vegna anna þessa daganna. Annirna má rekja til vinnu við útskriftarverkefni mitt sem ber titilinn Innland og verður frumsýnt í húsnæði myndlistardeildar Listaháskóla Íslands í Laugarnesi á laugardaginn eftir viku kl 18.30. Næstu sýningar verða 15. maí og 18. maí kl. 20. Skellið ykkur.

 


Frelsi

Á dögunum varð loks að því að við, íbúarnir í þessu húsi, fengum internettengingu. Ji, hvað maður er frjáls, sögðu konurnar sem búa með mér við þegar þær sátu við eldhúsborðið, rétt eins og þær væru persónur í sögu eftir Svövu Jakobs, og sátu síðan við tölvuna alla helgina með krippu að lesa kostulegar fréttir af siðblindu og veruleikafirrtu fólki í Bandaríkjunum.

Ég er ekki jafn heppinn því tölvan mín er eitthvað biluð. Ég held að það sé kominn tími til að ég fái mér nýja til að fá hlutdeild af þessari hamingjunni.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband