Times are gonna change, yo.

Er ég nú kominn heim, og tek ég mér þetta atviksorð með mikilli ánægju og stolti í munn, land og byggingar hér á landi hugnast mér jafnvel betur en áður, einkum eftir það sem ég hef gengið í gegnum og verður lýst í eftirfarandi kveinsögu sem hefur þann boðskap að maður skyldi ávalt vanda vel til verks þegar eitthvað er pantað á netinu.

Á mánudaginn kl. 4 um morgun að staðartíma bar ég föggur mínar út á stétt fyrir framan heimilið mitt í Giessen, tók lykilinn af kippunu og lokaði á eftir mér. Föggur mínar reyndust hins vegar, eins og ég hafði haft áhyggjur af nokkra daga á undan, allt of þungar, þannig að ferð mín á lestarstöðina varði lengur en tímaáætlun hafði gert ráð fyrir. Þannig missti ég af lestinni til Frankfurt. Þetta var þó ekki alvarlegt vandamál, næsta lest skilaði mér ljúflega á flugvöllinn í tæka tíð og einni og hálfri klukkustund fyrir áætlaða brottför gekk ég í gegnum flugstöðvarbygginguna í átt að mínum terminal, framhjá stórri fjölskyldu sem ég geri ráð fyrir að sé eða hafi verið búsett í Bandaríkjunum, því um það bil sem ég leið hjá sagði kona á miðjum aldri, sem vænta má að hafi verið móðir þeirra barna og unglinga sem þar voru, "Times are gonna change, yo". Í huga mínum tók ég undir með konunni.

Nokkrum andartökum seinna leit ég yfir töflu með komu og brottfarartímum þar sem ritað var að vél Icelandair flygi fyrst frá Frankfurt um kl. tvö síðdegis, þ.e. eftir sjö og hálfa klukkustund. Ekki var tekið fram sérstaklega að um seinkun væri að ræða þó vitanlega væri um slíkt að ræða frá mínum bæjardyrum séð. Taldi ég nú, eftir að hafa gengið um skugga að þessar upplýsingar stæðust, að ég hefði skoðað rangan brottfararmiða, sem vitanlega var bjánalegur klaufaskapur en ég var samt feginn að hafa ekki misst af vélinni. Af eirðarleysi tók ég upp á því að opna tölvuna, spila kapal og taka til á desktoppinum í þá einu og hálfu klukkustund meðan rafhlaðan dugði. Þá hélt ég til baka að meginandyri flugstöðvarbyggingarinnar til að hafa upp á bakaríi til að versla morgunmat og gekk aftur framhjá fjölskyldunni; fjölskyldu meðlimirnir voru allir sofnaðir að konunni undanskildri sem hélt utan um tvö yngstu börnun og starði alvarleg út í tómið.

Ég fylgdist með starfsmönnum flugvallarins safna kerrum. Þannig leið tíminn. Þegar þrír tímar voru í brottför gat ég ekki meir og til að hafa eitthvað fyrir stafni gekk ég að innritunarborðinu um leið og það opnaði. Ég rétti fram vegabréfið mitt og eftir nokkur slög á lyklaborðið tjáði konan við innritunarborðið mér að ég væri ekki skráður. Ég var í undrun minni sendur að söluborði þar sem ég mætti annarri konu og átti sú ekki eitt einasta orð yfir því kæruleysi mínu að ferðast án tiltæks bókunarnúmer. Ég hafði því upp á almenningstölvu, fann bókunarnúmerið og fór aftur til konunnar sem þá hafði aðgætt hvort ég hefði átt flug daginn áður og komst að því að svo var alls ekki. Eftir að hafa slegið inn bókunarnúmerið sagði hún hins vegar: "Sérkennilegt, hér stendur að þér hafið átt nú í morgun flug frá Keflavík til Frankfurt. Sie waren heute morgen ein No-Show."

Ég greip um andlit mitt af skömm, andvarpaði og konan sagði, eins og til að hugga mig að flugið væri enn opið, ég gæti enn bókað far, en það myndi kosta mig 450 evrur. Ég sagðist ekki eiga annarra kosta völ en bað konuna um að bíða meðan ég hringdi í kortafyrirtækið mitt til að fá hækkaða heimild. Símaþjónustufulltrúar Mastercard reyndust allir uppteknir og ég fékk að heyra biðtón, "Óbyggðirnar kalla" með Magnúsi Eiríks og KK og um leið og ég heyrði textabrotið "ég veit ekki hvort eða hvernig eða hvenær..." skellti ég á. Ég nennti þessu ekki. Ég bað konuna um að athuga hvort það gæti verið að það væri næg heimild á kortinu. Þá hafði hún í millitíðinni hringt í aðalskrifstofu Flugleiða í Frankfurt og fengið þær upplýsingar að ég gæti borgað mun lægra verð sem uppbót.

Voru nú vandkvæðin að mestu að baki nema hvað að við vopnaleit í óhemju víðfemum handfarangri mínum fannst dúkahnífur, við inngöngu í vélina var ég beðinn um að hafa upp á rakvél í tösku og slökkva á henni, hópur handknattleiksmanna sem töluðu full mikið sín á milli um annars vegar saurlát og hins vegar McDonalds, hefði mátt vera betur þrifinn og þ.m. betur lyktandi, og vitanlega var henti það í fyrsta skiptið á ævi minni að leitað var að eiturlyfjum í töskunni minni vipð komuna í Leifstöð.

Lýkur hér umkvörtunarfrásögn frá því hversdagslega hryðjuverki sem ég hef framið á sjálfum mér. Hef ég nú endurheimt hamingjuna og þykir hún einhvers virði því um stund virtist hún fjarlæg og úr augnsýn.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband