2.2.2008 | 17:24
Í dag og í gær
Í dag á fyrrverandi sambýlismaður minn afmæli. Í kvöld heldur fyrrverandi sambýliskona mín honum veislu í gömlu íbúðinni minni. Fer vel því, því bæði eru úrvalsmenni.
Sjálfur hafði ég ástæðu til að fagna í gær, því þá var (svo framarlega sem ég veit) undritaður leigusamningur sem tryggir búsetu mína í miðborg Reykjavíkur næsta ár eða svo. Hafði ég hugsað mér að kaupa af því tilefni freyðivín en snerist hugur þegar í matvöruverslunina var komið því ég mundi skyndilega að sá drykkur finnst mér viðbjóðslegur. Í staðinn fjárfesti ég í aðeins dýrara rauðvíni en ég ber vana til og tók með mér í kvöldverðarboð. Var flaskan klædd bláum tausekk og þótti gestgjafa mínum þar um mikið til koma þótt bragðið væri ekki nema mátulegt.
Athugasemdir
Friðgeir, hvað kemur þér tilað halda að tilveran sé svona traust, að þetta hafi verið fyrrverandi sambýliskona þín og fyrrverandi sambýlismaður, ég myndi ekki vera svona viss, ég myndi endurskoða nokkra pappíra í efstu hillunni og taka þetta til gagngerrar endurskoðunar, naga blýantinn, pússa yfir blettina á borðinu, sérstaklega þennan með kvistinn í og horfa svolítið annarshugar á símann, því mér fannst um leið og ég las þetta að það væri eitthvað stórlega bogið við skilning þinn á lífinu yfirleitt, og þú þyrftir að endurraða skjölum og öllum pappírum, og ef þetta er nú samt svoleiðis að þetta hafi verið fyrrverandi sambýliskona þín og fyrrverandi sambýlismaður þá er tilveran ekkert endilega traustari.
Elísabet Jökulsdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 18:45
Og hvar er heimsveldið á síðunni þinni, ég er svo miklu þunglyndi að ég ræð ekki yfir eigin haus, þar er ekkert fyrrverandi, núverandi, fjarverandi, tilvonandi eða neitt. Nei, bara auðar skúffur og tómið í kring.
Það er nú samt lítið ömmubarn á leiðinni.
Elísabet Jökulsdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 18:46
Ekki heyrist mér af þessu stórkostlega fallega kommenti að það sé bara tóm kringum skrúfur í hausnum á þér. Það er líklega rétt hjá þér, það er ekki alltaf alveg ljóst hvað er hvað er fyrrverandi, fyriliggjandi og verðandi í þessum heimi, þótt ég sé viss um að allt endi einhvern veginn, en eitt er víst að þú skalt drífa þig að heimsækja þann núverandi sambýling minn sem er á landinu, hana Vilborgu og þiggja hjá henni kaffi ef hún býður. Ég er reyndar sjálfur ekki fluttur inn: það er óhætt að gera ráð fyrir að það valdi ruglingi á skilgreiningum
Friðgeir Einarsson, 4.2.2008 kl. 01:27
Þið eruð póst-nostalgísk, bæði tvö!
Karl Ágúst Þorbergsson (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 09:57
Og Kalli póst-póst-póst-eitthvað sem koma skal á afmæli í dag, til hamingju Kalli! Hann er núverandi, æ sorrí, hann er bara yndislegur, þarna ætti ég að vera póst eitthvað, en til hamingju með afmælið.
Elsti sonur minn og tengdadóttir eiga líka afmæli í dag, svo þetta er stórafmæli.
Elísabet Jökulsdóttir (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 12:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.