28/12 2007: Af brúðuheimilum

Nýlega fór fram skemmtun í skólanum mínum í Þýskalandi þar sem nemendur og kennarar fögnuðu væntanlegum jólum með sýningum á misalvarlegum atriðum, nefndum gjörningum - jólagjörningum, oftar en ekki með satírísku ívafi, gagnrýni á störf og starfsemi skólastofnunarinnar framsett á karnivalískan máta. Flestir voru á því máli að þetta árið hefðu farið fram leiðinlegustu jólagjörningar í manna minnum, og raunar hefðu aðeins tvö atriði verið nógu skemmtileg til að réttlæta að áhorfendur væru staddir í sætum sínum en ekki undir sæng heima hjá sér. Þar ber fyrst að nefna söngatriði þar sem maður á ofanverðum þrítugsaldri fagnaði sinni síðustu þátttöku á jólaskemmtuninni eftir 8 ára nám við stofnunina, flutti My way með breyttum texta. Nemandinn var í bleikum buxum. Í seinna atriðinu var ég þátttakandi. Ég og dönsk vinkona mín sem einnig stundar nám við skólann höfðum ákveðið að setja saman atriði sem túlkaði árekstur reynslu okkar af nýjum heimkynnum við norrænan uppruna okkar, þ.e. einhvers konar kómískan núning milli okkar og hinna, sem jafnframt myndi leiða okkur saman inn í sameiginlegan hugmyndaheim þar sem virkni íróníu og andæfinga er ljós. Eftir bollaleggingar ákváðum við að spegla áhorfendur í skandanavískri andstæðu sinni, hinu norræna hinu, og að vandlega íhuguðu máli lá það ljóst fyrir að fátt væri meira pervers á þessum slóðum en að leika senu úr Brúðuheimili Ibsens. Við vönduðum okkur að vera í atferli og limaburðum eins natúralísk og borgaraleg og mögulegast væri unt svo harmleikur og alvarleiki verksins kæmist vel til skila í þessu stutta broti þar sem Nora segir Torvaldi að hjónaband þeirra hafi silgt í strand. Stuttu áður en ég steig á svið hugsaði ég sem svo að þetta ætti engin eftir að skilja, að kannski ætti grínið ekki eftir að komast til skila nema að við merktum það með einhverjum hætti - fólki gæti hreinlega þótt þetta bara nokkuð góð leiklist sem í þessu samfélagi afbyggingar og framúrstefnu heitir vond leiklist. Raunin var sú að fólk tók andköf af hlátri og þurfti við stundum að gera hlé á leik okkar svo línurnar týndust ekki í stærstu hláturgusunum. Eftir sýninguna kom kollvikahár prófessor og sagði við mig: Þér hafið mikla hæfileika sem gamanleikari. Sem ég veit ekki hvort ég get tekið sem hrósi því ég las bara línur og reyndi að vera alvarlegur.

Í öðrum fréttum ber það hæst að ég er kominn til Íslands í jólafrí og hef gætt mér á mat, veigum og vinfengi síðustu daga.
Og erfingi vina minna Ylfu og Davíðs er kominn í heiminn. Þeim vil ég óska til hamingju.

Góðar stundir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband