15.1.2008 | 14:58
28/11 2007: Af leikhúsupplifunum og menningartengdum svefnröskunum
Nú þegar klukkan frammi í almenningi er loksins farin að ganga á nýjan leik (ég hef frá upphafi dvalar minnar nefnt það sem eina af helstu sönnunum um það metnaðarleysi sem stríðir gegn gæðum þessarar heimavistar sem heimilis (en sú skoðun mín er meðal þess sem býr að baki flutningi mínum sem fer fram í lok vikunnar (en það er önnur saga (sem ég geri ráð fyrir að segja síðar)))), ganga ,,aftur" eins og ég var næstum búinn að orða það, er ég kominn úr takt við umhverfi mitt; ég hef sofið af mér tvo síðustu eftirmiðdaga og sé fram á að vaka fram á nótt eins og ég gerði síðustu nótt. Þeim sem halda því fram að reglulegur svefn sé helsta dyggð mannsins, uppspretta góðrar hugsunar og félagsvitundar, m.ö.o. að allt annað komi í kjölfarið, skal bent á að með þessum hætti er hægt að öðlast tvo daga í einum - atburðir sem áttu sér stað í gær, sé miðað við hefðbundið dagatal, virðast hafa átt sér stað fyrir nokkrum dögum, í fyrri hluta vikunar, þó að venjulegur vökuháttur kveði á um að nú sé þriðjudagur, í rauninni komið fram á miðvikudag án þess að ég hafi veitti því sérstaka athygli. Með þessum hætti þykist ég geta helmingað tímann sem eftir lifir fram að dauða mínum út í hið óendanlega.
Fyrir utan þessi hagsýnu sjónarmið gefur svefnrof og -órói af sér ákaflega frjóa og óhefta hugsun sem er listamönnum eftirsóknarverð. Hér vil ég þó vera þess var, og taka það fram, að ég sé fram á að líkamlegt óþol og óhamingja eigi eftir að hverfa þessari skoðun minni og að brátt sækist ég eftir daglegum lifnaði á nýjan leik.
Ástæður þessara breyttu lifnaðarhátta má rekja til einkar ánægjulegrar en jafnframt úrvindandi heimsóknar minnar til Berlínar um helgina. Án þess að lasta einkar ánægjulegar samdrykkjur og aðra vinafagnaði með Íslendingum þar í borg, bar hæst sýning dansk-þýsk-austurríska performanshópsins Signu (www.signa.dk) sem bar yfirskriftina The Dorine Chaikin Institude og fer fram í Ballhaus Ost í Prenzlauerberg milli 12 og 24 alla daga til 1. desember. Eins og tímasetning gefur til kynna er hér ekki um hefðbundna leiksýningu að ræða heldur það sem kalla mætti (eins og fólk gerir) lifandi innsetningu með sterkri kröfu um áhorfendaþátttöku. Sjálfur mætti ég á hádegi á laugardagi og var lagður inn, látinn skipta úr mínum fötum yfir í sjúkrahússlopp og buxur og sannfærður um að ég héti ekki það sem ég héldi að ég héti heldur Joseph og að ég væri ekki listnemi heldur lestarstjóri að atvinnu. Mér var úthlutað rúmi og síðan var ég greindur með disassósíatíva amnísíu (minnistap með skorti á getu til hugrenningartengsla) og imsomníu (sennilega af því að glöggt mátti sjá að ég hafði sofið lítið þá um nóttina). Á þeim ellefu stundum sem ég var staddur í sýningunni (en þess má geta að flestir dvelja ekki svo lengi) gekkst ég undir ýmis konar prófanir, rannsóknir og meðferðir, bæði í prívat og í hóp, þar sem áttu sér stað árekstrar milli þess ídentitets (sjálfsmyndar) sem mér var úthlutað og þess ég hélt mig búa yfir. Þess á milli unni ég mér lengi við að púsla, tefla, drekka kaffi, fylgjast með og spjalla við sjúklinga og starfsfólk, hvort tveggja leiknar persónur (túlkaðar af leikhóp) og aðra utanaðkomandi þátttákendur/áhorfendur (túlkaðir af hversdagsfólki eins og mér). Og aldrei var notast við handrit, enginn skrifaður texti; t.d. átti sér stað áhugaverður viðburður í sýningunni þegar blómasali ruddi sér leið inn á stofnunina og hugðist bjóða vöru sína fala, en varð heldur en ekki hlessa þegar hann sá að hann var kominn inn á spítala. ,,Er þetta alvöru sjúkrahús?" spurði hann. Hvort tveggja starfsfólk og sjúklingar sögðu að svo væri og sýndu honum aðstöðuna án þess að viðurkenna að um listviðburð væri að ræða.
Sennilega áhugaverðasta leikhúsreynsla mín á þessu ári, jafnvel þótt síðasta ár væri tekið með og þó að víðar yfir akur ævi minnar væri leitað.
Þetta er þó ekki fyrsta sýningin sem ég sé með þessum hóp, sú fyrri ,,Birtingar Mörthu Rubin" var ekki tæplega síðri, raunar yfirgrips- og íburðameiri, en vafalaust hefur takmörkuð þýskukunnátta mín dregið úr upplifuninni. Fór sú sýning fram í Köln, í tómu verksmiðjuhúsnæði, þar sem heilt þorp hafði verið reist með veitngastað, bar, snyrtistofu, samkomutorgi og fjölmörgum heimilum fyrir íbúanna, sem voru rýrir af veraldlegum gæðum en unnu það upp með lífgleði (fylliríi), söng og dansi. Fögnuðu þeir endurkomu gyðju sinnar og ættumóður Mörthu Rubin sem lá mestallan tímann í kapellu í miðju þorpsins og hvíldist eða svaf. Þorpinu var hins vegar vandlega gætt af hermönnum frá ,,The Northern State" sem þurftu að hafa sig allan við að hafa hemil á gleði þorpsbúa. Þurftu áhorfendur að gangast undir landamæraeftirlit og fá vegabréfsáritun til að fá inngöngu og hlutu að því loknu stutta kynningu á lögum og reglum bæjarins. Í þessum performans dvaldi ég 15 eða 16 klst., nærðist þar og svaf í þar tilgerðri svefnaðstöðu í leikmyndinni (margir gistu í rúmum leikaranna) og fylgdist með bæjarlífinu eins og ferðamaður, hlýddi á sögur og límdi þannig saman mína eigin mynd af heimi verksins, lögmálum þess og boðskapi. Þessar sýningar fóru fram um helgar í október og vörðu hver í 40 - 50 klst. Þegar ég kom á laugardegi, hafði sú sýning staðið í rúmam sólarhring, en stemningin þá þegar orðin býsna súr. Og hún varð bara súrari, einkum þegar áfengi og ölvaðir gestir blandaðist í atburðarásina. Þegar ég fór á klósettið um morguninn - það birti yfir þorpinu og það vaknaði hægt, fáir á ferli enda sunnudagur - og var á leiðinni út til að halda áfram mínu borgaralega lífi í Norðurríki, mætti ég manni sem hélt uppi höndunum og virtist misboðið, spurði mig hvort inn í vagninum sem ég væri að koma út úr væri vaskur svo hann gæti þvegið sér. Þegar ég sagði að svo væri fullyrti hann: ,,The general situation here is disgusting." Þó að ég hafi ekki andmælt manninum tók ég ummælin nokkuð nærri mér fyrir hönd þorpsbúa rétt eins og þeir ættu sér raunverulega tilvist sem þyrfti að bera virðingu fyrir. Þykir mér þetta sanna innlifun mína í blekkingarheiminn.
Þykir mér ekki óvarlegt að spá áhrifum frá þessum sýningum í verkum mínum í framtíðinni. Í nútímanum, hins vegar, akkúrat núna, hyggst ég freista svefns. Ég er kominn með höfuðverk.
Góðar stundir og góða nótt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.