22/11 2007: Útlendingaeftirlit


Það eru fjórar tilkynningar í biðsal útlendingaeftirlitsins í Giessen, fjórar tilkynningar á fimm veggspjöldum, því ein er á tveimur tungumálum: Þýsku og Tyrknesku. Þetta eru einu uppsprettur einhvers konar upplýsinga í biðsalnum, við hliðina á vél sem úthlutar biðnúmerum er reyndar tímaritagrind en hún er tóm. Ég er númer 32, ég kom þrjár mínútur eftir að skrifstofan opnaði klukkan tvö síðdegis. Ég bíð þess að fá afhent vegabréfið mitt sem ég afhenti ásamt þar til gerðu skráningarblaði við hópskráningu erlendra stúdenta. Ég kemst bráðum að því að konan sem tók við því, sem er stór og þybbin, heitir Frau Klein. Hún situr við stórt skrifborð ásamt annarri konu sem ég kemst aldrei að hvað heitir og segir um leið og ég kem inn að hún hafi verið að bíða eftir þessum. Þegar ég segist vilja fá vegabréfið mitt til baka segir hún ,,Herra Einarsson, skráning yðar var ófullnægjandi. Hví hafið þér ekki skráð yður hjá skrifstofu bæjaryfirvalda?" Ég segist hafa staðið í þeirri meiningu að þetta væri skrifstofa bæjaryfirvalda og uppsker í fyrsta skiptið ítarlega lýsingu hvar hana er að finna og hvernig skuli standa að skráningu. En þangað til ég kemst að þessu bíð ég ásamt fulltrúum allra heimsálfa í teppalögðum biðsal. Það líða tvær klukkustundir. Ég hef gleymt að hafa með mér bók til að lesa. Ég hafði ekki gert ráð fyrir að þurfa að bíða. Konan við hliðina á mér hallar sér fram og grípur um höfuð sér. Það eru legókubbar við hliðina á skjánum sem birtir númer þess sem fær fær viðtal og í hvaða herbergi hann skuli mæta. 14 í herbergi 5, til dæmis. Tveir strákar, arabískir í útliti, og maður sem ég giska á að sé afi þeirra byggja turna úr legóinu og rífa þá jafnóðum niður aftur. Svo byrja þeir upp á nýtt. Frau Klein dregur fram myndina sem ég hef áður afhent henni og otar henni að mér. Henni finnst myndin óásættanleg, svona svarthvít og hlutföll andlits á móts við búk of lág. Aðspurð segir hún að ákveðin tegund af ljósmyndun sé ásættanleg og þriðji starfsmaður birtist úr nærliggjandi skrifstofu með stórt upprúllað plaggat sem hún sýnir mér. Nú sé ég hvernig góð passamynd líur út; án slæðu, án gleraugna, í lit, ekkert hár yfir andlitinu, maður horfir beint inn í vélina og brosir en það er ekki skylda. Á plaggatinu er strokað yfir ófullnægjandi passamyndir með rauðum kross. Á stóru veggspjaldi frammi í biðstofunni stendur að það sé bannað að reykja. Á minna spjaldi hægra megin við stendur hvaða ráðstafana ber að gæta a) til að koma í veg fyrir eldsvoða (t.d. með því að virða bann gegn reykingum) og b) hvernig ber að haga sér komi eldur upp. Á vinstri höndi er vinaleg tilkynning frá yfirvöldum að þau séu boðin og búin að hjálpa erlendum ríkisborgurum að koma aftur til síns heimalands eða í rauninni hvaða lands sem er í heiminum. Fjórða tilkynningin, þessi sem er á tveimur tungumálum, fer þess á leit við óbreytta borgara að þeir veiti aðstoð við að upplýsa einhvert af hinum fjölmörgu morðum sem framin hafa verið á síðustu misserum. Því er haldið fram að það hafi geysað morðfaraldur í landinu. Spjaldið er myndskreytt með korti af Þýskalandi þar sem merkt er inn á hvar morðin hafa verið framin og hversu margir hafa verið myrtir á hverjum stað. Til að undirstrika ógnina er mynd af byssu með hljóðdeyfi skeytt yfir kortið. Ég fyllist óhug, kannski er ég ekki eins öruggur og ég hélt. Ég spyr Frau Klein, um það bil sem ég stend upp, hvert sé markmið þessarar skráningar, hvort bakvið hana hvíli einhver tilgangur. Hún segir mér, laus við undrun, að ef ég ætli að búa í Þýskalandi vilji þau vita hvar ég sé, lögreglan vilji vita hvar ég sé. Mér er úthlutað viðtalstíma sex dögum seinna kl. 14.30. ,,Þarf ég að bíða" spyr ég.  ,,Nei, þér hringið bara bjöllunni og spyrjið um mig, Frau Klein." Ég læt því næst taka mynd af mér í sjálfsala, ég kýs að brosa ekki. Á skrifstofu bæjaryfirvalda fæ ég að gjöf ávísun fyrir bóksafnsskírteini á bæjarbókasafninu . Mig vantar einmitt bók. Ég tek út Ameríku eftir Kafka, hjóla heim, helli upp á og reyni að státa mig fram úr fyrstu blaðsíðunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband