Flandur

Flandraði á dögunum inn í stóra bókabúð og rakst þar á skipulagsdagbók sem ég stóðst ekki mátið að kaupa, því mér fannst hún sameina með eindæmum vel þá tvo kosti sem æskilegt er að slíkt áhald beri með sér: annars vegar notagildi og meðfærileika hvað varðar stærð, niðurröðun og umbrot og hins vegar naum og ýkjulaus fagurfræði í ytri hönnun. Og ekki nóg með að hún hafi síðan verið mér passívur en þarfur þjónn við að koma reglu á daglegt amstur mitt, heldur hef ég nýverið gefið því gaum að í horn hverrar opnu (sem rúmar hver fyrir sig skipulega allar vikurnar í árinu) eru ritaðar knappar en spaklegar tilvitnanir í látin gáfumenni sem hafa einhvern tímann á að giska um og eftir menningarbyltingar í þróun vestræns þekkingarsamfélags rutt sér leið gegnum orðakra tilveru sinnar og fundið eða glatað í snörpum þeytivindum viðfanga og athugenda eitthvað sem einhverjir, ef ekki þeir sjálfir, hafa heimfært upp á hugtakið tilgang. Alltént hef ég lesið yfir þann orðfögnuð sem sótt hefur inn á opnur janúarmánaðar og undrast, eins og týnd sál sem blaðar af rælni í Biblíu á nafnlausu hótelherbergi og verður skyndilega snortin af ókunnu en hlýju ljósi, að það sé eins og þessi litla bók sé að reyna að taka þátt í samræðum við mig um hluti sem ég hef velt fyrir sjálfum mér frá áramótum. Ég birti hér þessar tilvitnanir í lauslegri þýðingu:

 

Núna er þessi gamli góði tími sem við horfum til baka á eftir tíu ár.

-Peter Ustinov

 

Dyggð hverrar manneskju mælist í einsemdinni sem hún er þess megnug að umbera.

-Friedrich Nietzsche

 

Maður þráir ekki bara vera hamingjusamur, maður þráir að vera hamingju samari en aðrir. Og það er svo erfitt, því við teljum aðra vera miklu hamingjusamari en þeir eru í raun og veru.

-Charles-Louis de Montesquieu

 

Helvíti eftir þennan heim? Hvílíkt ímyndunarafl!

-Emanuel Wertheimer

 

Þetta síðasta skaut svo upp óvænt eins og svart dufl þegar ég og vinkona mín í einhverri óljósri afleiðingu, eftir frásögn hennar af hlaupum í myrkri, flettum í gegnum nýju bókina og lásu upp tilvitnanir af kerskni. Tilvitnunin reyndist nefnilega með ólíkindum vel viðeigandi svo að spaugsemi okkar fjaraði út, því vinkona mín hafði einmitt tjáð mér að nágrannakona hennar hefði tjáð sér, í viðleitni sinni til að lina skömm vinkonunnar yfir að hræðast myrkrið, sem var ítem orsök allra hlaupanna, að ótti hennar gæfi til kynna að hún byggi yfir ímyndunarafli, því eins og hún sagði, og þýði ég nú meint ummæli nágrannakonunnar: Hugrekki er til merkis um skort á ímyndunarafli, sem má skilja sem svo að þeir einir séu hugrakkir sem þekkja ekki hætturnar. Þetta samræmist ekki mínum skilgreiningum á fyrirbærinu, þvert á móti og mun ég innan skamms gera grein fyrir rökum skoðunnar minnar. Það sem er hins vegar satt við fullyrðingu þessa fulltrúa nafn- og andlitslausra (smá)borgara í afskiptum þýskum þorpum, í þessum þorpum sem gætu rétt eins ekki verið til þegar maður er ekki staddur í þeim eða heyri á þau minnst, er að óttinn býr í myrkrinu, í hinu ókunna sem ekki hefur (enn) sýnt sig, komið í ljós. Það hræðilega sem við þekkjum ekki með fullri upplýsingu og/eða yfirsýn, gæti átt sér stað, birst á ófyrirsjáanlega vegu þannig að við getum engan veginn varist.

Nýverið las ég í bók eftir smámælta slóvenann Slavoj Zizek, í kafla þar sem fjallað var sérstaklega um þessi áhrif möguleika í rökfræði á tilfinningalíf, breytni og gervi mannskepnurnar, skemmtilegt og afbyggjandi viðhengi við heimspeki Donalds Rumsfelds um þrjá flokkar þekkingar, sem hann kynnir í eftirfarandi mynddæmi:
http://www.youtube.com/watch?v=_RpSv3HjpEw&NR=1

Zizek vill meina að hér hafi Rumsfeld gleymt að nefna fjórða flokkinn, þann mikilvægasta: um hluti sem við vitum ekki að við vitum, það sem við bælum, áföll og ótti sem hefur ómeðituð og órökleg áhrif á atferli okkar og framkvæmdir; uppspretta hjátrúar ranghugmynda og vænissýki.

Að þessu sögðu vil ég freista þess að orða mína merkingu á hugtakinu hugrekki: að hugrekki felist í því að horfast í augu við óttann, viðurkenna tilvist hans og halda aftur af honum í sjálfum sér en ekki láta hann stjórna sjálfum sér og öðrum gegnum mann sjálfan.

Nú gæti svo verið, án þess að ég sé um það handviss, að einhverjir sem mér eru nákomnir geti bent mér á dæmi um þessi skoðun mín sé ekki iðkuð í mínu lífi og ef svo er, þá hlýt ég að verða að fallast á það, ég hlýt að þurfa að vera óhræddur við að breyta sjálfsmynd minni, sem og við allar breytingar, við mögulegar breytingar, við að vera skyndilega staddur á einhverjum stað án þess að það sé hægt að skilgreina hann sem áfangastað.

Ætli það hafi ekki verið í tengslum við akkúrat þetta að ég gerði á dögunum lítils háttar tilraun, framdi enga hetjudáð svo sem, en brá mér í það sem sumir tala um sem súrealiskan göngutúr, en Þjóðverjar kalla flanieren og ég er nokkuð viss um að geta þýðst sem fandur, að flandra. Ég lagði þá upp frá heimili mínu án tilgangs eða markmiðs og kannaði landslag myrkursins, og meðan ég hugleiddi gárur á yfirborðsfleti hversdagslífs míns gekk ég niður fáeinar götur, bak við fjölbýlishús, inn í ruslageymslu og aftur út á götu og yfir götu og inn í garð, þar sem var stór tjörn og tré og styggar kanínur og á einhverjum tímapunkti sem ég kann ekki að nefna því ég var ekki með úr, áttaði ég mig á því að ég vissi ekkert hvar ég var, eiginlega ekki, þangað til ég sá ljósaskilti á þaki kaffihúss á lofti þrettán hæða íbúðablokkar og eftir fáeinar mínútur var ég komin á fjölfarna og hellulagða göngugötu sem margar verslanir standa við, meðal annars stór bókabúð sem ég fór inn í og rakst á skipulagsbók sem ég stóðst ekki mátið að kaupa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: dansaradruslan

Ég er einstaklega hrifin af skipulagsdagbókum....ég skipulegg líf mitt í þeim út og inn og þá líður mér eins og ég sé skipulögð, ég tel mig vera skipulagða en ég held kannski að það sé blekking bókanna...... en ég ætla samt að halda áfram að nota skipulagsdagbækur! Gangi þér vel með þína. Það er gaman að lesa bloggið þitt

dansaradruslan, 28.1.2008 kl. 22:56

2 Smámynd: Vilborg Ólafsdóttir

Heyrðu hvernig gastu gert mig að bloggvini þínum án þess að ég þyrfti að samþykkja þig sérstaklega á bloggvinalistanum í stjórnborðinu mínu? Ekki það að ég hefði ekki samþykkt þig, ég hefði alveg gert það. En hvernig gerðirðu þetta?

Jæja ég er

Vilborg Ólafsdóttir, 29.1.2008 kl. 18:31

3 Smámynd: Vilborg Ólafsdóttir

Já ég er s.s. farin í hambó á Vitastíg. Annars er þessi færsla eins og fallegur draumur.

Vilborg Ólafsdóttir, 29.1.2008 kl. 18:34

4 Smámynd: Vignir Rafn Valþórsson

Ég er alltaf með skipulagsbók á mér (moleskin auðvitað) og hef gert í mörg ár, en málið er að ég nota hana ekki til að skipuleggja neitt af ráði.  Heldur geng ég með hana á mér til að rita niður í ef að upp í huga minn koma einhver unknown knowns (og þá nota ég einungis auðu blaðsíðurnar sem liðnar eru)

Vignir Rafn Valþórsson, 30.1.2008 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband