Nýjar slóðir

Það er óhætt að segja að þessi vetur hafi verið umhleypingasamur hvað varðar íverustaði mína hvort tveggja stafræna og hlutlæga.

Fyrst ber að nefna það sem snýr beint að lesendum þessara skrifa minna, ég hef enn og aftur breytt um slóð, þar sem alþýðlegt viðmót síðu minnar freinarsson.bloggar.is hvarf skyndilega og án nokkurra skýringa. Mér tókst hins vegar með lagni að komast inn á stjórnborð vefsins og ná í þær færslur sem ég hef þar vistað. Hef ég nú birt þær hér á nýju síðunni. Þess fyrir utan er Moggablogg meira meinstrím sem gæti stuðlað til þess að einhver lesi það sem ég birti.

Í öðru lagi verða veraldlegir mannabústaðir mínir síðasta misseri að teljast ófáir. Ég hef flutt úr Vesturbænum til Berlínar, aftur til baka ef svo óvarlega má komast að orði því ég dvaldi aðeins rúman mánuð á Íslandi áður en ég flutti aftur til Þýskalands, hingað til Giessen, þar sem ég gerðist svo ólukkulegur að búa á þröngum Stúdentagarði í tvo mánuði eða þangað til ég rauk út með miklu búrókrasísku fjargviðri og tók strætó hingað niður á Steinstrasse, þar sem ég sit núna í góðu yfirlæti í göngufæri við fljótið og kvíði því að flytja á ný. Eftir um það bil mánuð þarf ég nefnilega að snúa aftur til Íslands. Þar bíður mín ekki íbúð, ekki enn sem komið er, en nú á síðustu dögum virðast vera komnar skriður á þau mál sem lúta að því að koma í veg fyrir frekari hreyfingu og flutninga. 

Ég hef í félagi við stelpurnar Evu og Vilborgu, bekkjarsystur mínar, leitað að íbúð í Reykjavík og það er útlit fyrir að Vilborg hafi fundið eina slíka. Ég vil hins vegar ekki kasta álögum á þá málahagi með frekari innistæðulitlum fagnaðaryfirlýsingum.

 Téðir aðilar komu og heimsóttu mig í Giessen í nóvember. Það þótti mér vænt. Saman könnuðum við allt það besta sem bærinn hefur upp á að bjóða, skoðuðum skólann minn, drukkum kaffi og fórum að gröf vísindamannsins Konrads Röntgens - tvisvar. Á lokadeginum fórum við til Frankfurt og sáum þar tónleika hinnar víðfrægu sveitar Boney M, með upprunalega meðliminn Liz Mitchell í fararbroddi. Það var óborganlegt, vægast sagt.

Frá heimsókn Evu og Vilborgar til Giessen

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Ólafsdóttir

Vá hvað við erum myndarleg.

Vilborg Ólafsdóttir, 20.1.2008 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband