16/12 2007: Jólin nálgast í Giessen







  

13/12 2007: Nýtt heimilisfang

Ég ætlaði rétt sem skjótast að minna á, ef svo fáránlega vildi að einhverjum flygi þaðð til hugar að hafa fyrir því að setjast niður og krota með penna á blað til að senda mér í pósti eins og einhvers konar fornmaður með gangverksúr og karllægt gildismat, þá er ég fluttur af stúdentaheimilinu og bý núna í indælu (en tómlegu) 20 fermetra herbergi miðsvæðis í þessu annars ágæta bæ inni í miðjum hjara veraldar. Nýja heimilisfangið mitt hljóðar svo:

Steinstrasse 38
35390 Giessen
Deutschland

Hér mun ég dveljast þangað til ég flyst aftur heim í febrúar nema himinn og haf bráðni saman. Ef það skyldi vera yfirvofandi, og einhver vildi tryggja sem skjótast að ég vissi af því er einnig mögulegt að hringja í mig í eftirfarandi númer:

+49 15206403258.

Þeim sem er eða verða staddir á Íslandi og myndu vilja, af einhverjum afbrigðilegum ástæðum heldur hitta á mig í eigin persónu, er bent á að ég er væntanlegur til Íslands eftir rúma viku. Ég er svo væntanlegur út aftur rétt eftir áramót. Væntanlega er þetta nógu skýrt.

6/12 2007: Svipmyndir frá Giessen











  

30/11 2007: Manngerðir I og II

I
Ég var spurður á dögunum hvaða hugmynd Íslendingar hefðu um Þjóðverja. Ég svaraði því til að hinn týpíski Þjóðverji væri fyrst og fremst stundvís og vís til að panta sér svínshöfuð með káli á veitingahúsi. Eftir stutt kynni mín af þýskri menningu - og á þetta benti ég viðmælanda mínum - hef ég komist að því að Þjóðverjar eru alls ekkert stundvísir. Síður en svo. Til dæmis hefjast kennslustundir iðulega 10 mínútum of seint, jafnvel ef gert er ráð fyrir akademísku kortéri, og þá vegna þess að prófessorarnir mæta of seint. Auk þess hef ég veitt því athygli að u.þ.b. önnur hver klukka hér í bær er rangt stillt, oft skeikar nokkrum klukkustundum til eða frá, ef þær eru ekki hreinlega stopp, líka á lestarstöðinni, sem skiptir í rauninni ekki svo miklu máli því lestirnir koma nánast undartekningarlaust of seint. Einhvern veginn ljáðist mér að minnast þessa þegar ég sat og í dag ferðbúinn í herberginu á stúdentagörðunum, tómu og tilbúnu fyrir næsta fljótfæra nema í húsnæðisleit, og beið þess að að fulltrúi frá stúdentasambandinu kæmi, tæki lyklana mína og segði mér að þar sem ég hefði uppfyllt tilgreind skilyrði til flutnings þyrfti ég aldrei að horfa inn í þessa litlu holu aftur, hvað þá að búa þar. Ég átti raunar von á Herra Zimmerman, litlum en kænum starfsmanni skrifstofu sambandsins sem ég fyrirfann í bakherbergi merktu honum og komst ekki hjá því, meðan ég karpaði um að mér fannst óeðlilegur og illa skilgreindur innheimtur kostnaður af tryggingunni minni, að dást að því hvernig hver fersentimetri á veggjunum í kring var nýttur undir lykla sem voru þess fyrir utan flokkaðir eftir á að giska flóknu en skilvirku kerfi. Mér varð nokkuð létt tuttugu mínútur yfir eitt (ég hafði fengið sérstaklega útbúið blað sent í pósti þar sem mér var gert að vera staddur í herberginu klukkan eitt, ellegar yrði ég sektaður um 20 evrur) þegar inn ganginn gekk digurvaxinn maður í samfestingi og með þykkt grásprungið yfirvaraskegg og blístraði - ítem, húsvörðurinn en ekki herra Zimmerman. Áður en ég náði að segja að ég ætti eiginlega að rukka hann, sagði hann að honum hefði ekki verið sagt að hann ætti stefnumót við mig fyrr en kona frá skrifstofunni hefði hringt í sig fimm mínútum áður og sagt sér að ég hefði hringt og að ég væri að bíða. Þar sem ég gat samsamað mig með þeirri reynslu að upplýsingum væri komið seint og illa til skila frá þessari ákveðnu skrifstofu, ákvað ég að vera kurteis og æðrulaus við manninn. Þannig kæmist ég fyrr í nýju íbúðina mína til að hella upp á.

II
Meðan ég var að þrífa ruslafötu í sturtubotninum (en upp á því hafði ég tekið í eirðarleysi mínu meðan ég beið eftir fulltrúa stúdentasambandsins) kallaði Hamuda,  palinstínskur nágranni minn, nafn mitt inn á baðaðstöðuna: Friðrik! Friðrik!, eins og eitthvað mikið bjátaði á. Hann og félagar hans voru í óða önn að gera hummus með stórri hakkavél og það hvarflaði helst að mér að óhapp henni tengt hefði átt sér stað. Svo var ekki, og eftir stutt samtal okkar á milli, sem gekk mestmegnis út á að greiða úr misskilningi sem má rekja til takmarkaðrar Þýskukunnáttu minnar, kom í ljós að hann átti von á sendingu með DHL-póstþjónustunni, og var að spyrja mig hvort ég hefði orðið þess var að slíkur póstburðarmaður hefði vitjað sín þegar hann hefði ekki verið heima. Þegar ég sagði að svo væri ekki, ekki mér af vitandi, sagði hann, sennilega ómeðvitaður um að ég væri að flytja á næstu mínútum, að ef svo bæri undir mætti ég endilega skrifa undir fyrir hann, ég segðist bara heita Azzir Mohammed. Ég spurði hann hvort hann héldi að viðkomandi aðili myndi trúa að ég héti Azzir Mohammed, endurtók hann, og naut núna fullþingi félaga síns sem var að hakka kjúklingabaunir við stofuborðið, að ég skyldi bara segjast heita Azzir Mohammed og setja sendinguna á skógrindina fyrir utan herbergið hans. Ég benti honum á að sökum aðstæðna væri ólíklegt að þessi staða kæmi upp, en að þá myndi ég ekki skorast undan. Ef ég sakna einhvers við að búa á þessu stúdentaheimili er það að hafa ekki náð að fá að prófa hummusinn hans Hamuda og að hafa ekki fengð tækifæri til að heita nafninu hans. Þá hefði ég kannski sögu til að segja. 

28/11 2007: Af leikhúsupplifunum og menningartengdum svefnröskunum

Ókunnur Kölnarbúi fylgist með svefni Signu Soerensen í hlutverki Mörthu Rubin 
Nú þegar klukkan frammi í almenningi er loksins farin að ganga á nýjan leik (ég hef frá upphafi dvalar minnar nefnt það sem eina af helstu sönnunum um það metnaðarleysi sem stríðir gegn gæðum þessarar heimavistar sem heimilis (en sú skoðun mín er meðal þess sem býr að baki flutningi mínum sem fer fram í lok vikunnar (en það er önnur saga (sem ég geri ráð fyrir að segja síðar)))), ganga ,,aftur" eins og ég var næstum búinn að orða það, er ég kominn úr takt við umhverfi mitt; ég hef sofið af mér tvo síðustu eftirmiðdaga og sé fram á að vaka fram á nótt eins og ég gerði síðustu nótt. Þeim sem halda því fram að reglulegur svefn sé helsta dyggð mannsins, uppspretta góðrar hugsunar og félagsvitundar, m.ö.o. að allt annað komi í kjölfarið, skal bent á að með þessum hætti er hægt að öðlast tvo daga í einum - atburðir sem áttu sér stað í gær, sé miðað við hefðbundið dagatal, virðast hafa átt sér stað fyrir nokkrum dögum, í fyrri hluta vikunar, þó að venjulegur vökuháttur kveði á um að nú sé þriðjudagur, í rauninni komið fram á miðvikudag án þess að ég hafi veitti því sérstaka athygli. Með þessum hætti þykist ég geta helmingað tímann sem eftir lifir fram að dauða mínum út í hið óendanlega.
Fyrir utan þessi hagsýnu sjónarmið gefur svefnrof og -órói af sér ákaflega frjóa og óhefta hugsun sem er listamönnum eftirsóknarverð. Hér vil ég þó vera þess var, og taka það fram, að ég sé fram á að líkamlegt óþol og óhamingja eigi eftir að hverfa þessari skoðun minni og að brátt sækist ég eftir daglegum lifnaði á nýjan leik.

Ástæður þessara breyttu lifnaðarhátta má rekja til einkar ánægjulegrar en jafnframt úrvindandi heimsóknar minnar til Berlínar um helgina. Án þess að lasta einkar ánægjulegar samdrykkjur og aðra vinafagnaði með Íslendingum þar í borg, bar hæst sýning dansk-þýsk-austurríska performanshópsins Signu (www.signa.dk) sem bar yfirskriftina The Dorine Chaikin Institude og fer fram í Ballhaus Ost í Prenzlauerberg milli 12 og 24 alla daga til 1. desember. Eins og tímasetning gefur til kynna er hér ekki um hefðbundna leiksýningu að ræða heldur það sem kalla mætti (eins og fólk gerir) lifandi innsetningu með sterkri kröfu um áhorfendaþátttöku. Sjálfur mætti ég á hádegi á laugardagi og var lagður inn, látinn skipta úr mínum fötum yfir í sjúkrahússlopp og buxur og sannfærður um að ég héti ekki það sem ég héldi að ég héti heldur Joseph og að ég væri ekki listnemi heldur lestarstjóri að atvinnu. Mér var úthlutað rúmi og síðan var ég greindur með disassósíatíva amnísíu (minnistap með skorti á getu til hugrenningartengsla) og imsomníu (sennilega af því að glöggt mátti sjá að ég hafði sofið lítið þá um nóttina). Á þeim ellefu stundum sem ég var staddur í sýningunni (en þess má geta að flestir dvelja ekki svo lengi) gekkst ég undir ýmis konar prófanir, rannsóknir og meðferðir, bæði í prívat og í hóp, þar sem áttu sér stað árekstrar milli þess ídentitets (sjálfsmyndar) sem mér var úthlutað og þess ég hélt mig búa yfir. Þess á milli unni ég mér lengi við að púsla, tefla, drekka kaffi, fylgjast með og spjalla við sjúklinga og starfsfólk, hvort tveggja leiknar persónur (túlkaðar af leikhóp) og aðra utanaðkomandi þátttákendur/áhorfendur (túlkaðir af hversdagsfólki eins og mér). Og aldrei var notast við handrit, enginn skrifaður texti; t.d. átti sér stað áhugaverður viðburður í sýningunni þegar blómasali ruddi sér leið inn á stofnunina og hugðist bjóða vöru sína fala, en varð heldur en ekki hlessa þegar hann sá að hann var kominn inn á spítala. ,,Er þetta alvöru sjúkrahús?" spurði hann. Hvort tveggja starfsfólk og sjúklingar sögðu að svo væri og sýndu honum aðstöðuna án þess að viðurkenna að um listviðburð væri að ræða. 
Sennilega áhugaverðasta leikhúsreynsla mín á þessu ári, jafnvel þótt síðasta ár væri tekið með og þó að víðar yfir akur ævi minnar væri leitað.


Þetta er þó ekki fyrsta sýningin sem ég sé með þessum hóp, sú fyrri ,,Birtingar Mörthu Rubin" var ekki tæplega síðri, raunar yfirgrips- og íburðameiri, en vafalaust hefur takmörkuð þýskukunnátta mín dregið úr upplifuninni. Fór sú sýning fram í Köln, í tómu verksmiðjuhúsnæði, þar sem heilt þorp hafði verið reist með veitngastað, bar, snyrtistofu, samkomutorgi og fjölmörgum heimilum fyrir íbúanna, sem voru rýrir af veraldlegum gæðum en unnu það upp með lífgleði (fylliríi), söng og dansi. Fögnuðu þeir endurkomu gyðju sinnar og ættumóður Mörthu Rubin sem lá mestallan tímann í kapellu í miðju þorpsins og hvíldist eða svaf. Þorpinu var hins vegar vandlega gætt af hermönnum frá ,,The Northern State" sem þurftu að hafa sig allan við að hafa hemil á gleði þorpsbúa. Þurftu áhorfendur að gangast undir landamæraeftirlit og fá vegabréfsáritun til að fá inngöngu og hlutu að því loknu stutta kynningu á lögum og reglum bæjarins. Í þessum performans dvaldi ég 15 eða 16 klst., nærðist þar og svaf í þar tilgerðri svefnaðstöðu í leikmyndinni (margir gistu í rúmum leikaranna) og fylgdist með bæjarlífinu eins og ferðamaður, hlýddi á sögur og límdi þannig saman mína eigin mynd af heimi verksins, lögmálum þess og boðskapi. Þessar sýningar fóru fram um helgar í október og vörðu hver í 40 - 50 klst. Þegar ég kom á laugardegi, hafði sú sýning staðið í rúmam sólarhring, en stemningin þá þegar orðin býsna súr. Og hún varð bara súrari, einkum þegar áfengi og ölvaðir gestir blandaðist í atburðarásina. Þegar ég fór á klósettið um morguninn - það birti yfir þorpinu og það vaknaði hægt, fáir á ferli enda sunnudagur - og var á leiðinni út til að halda áfram mínu borgaralega lífi í Norðurríki, mætti ég manni sem hélt uppi höndunum og virtist misboðið, spurði mig hvort inn í vagninum sem ég væri að koma út úr væri vaskur svo hann gæti þvegið sér. Þegar ég sagði að svo væri fullyrti hann: ,,The general situation here is disgusting." Þó að ég hafi ekki andmælt manninum tók ég ummælin nokkuð nærri mér fyrir hönd þorpsbúa rétt eins og þeir ættu sér raunverulega tilvist sem þyrfti að bera virðingu fyrir. Þykir mér þetta sanna innlifun mína í blekkingarheiminn.

Þykir mér ekki óvarlegt að spá áhrifum frá þessum sýningum í verkum mínum í framtíðinni. Í nútímanum, hins vegar, akkúrat núna, hyggst ég freista svefns. Ég er kominn með höfuðverk.

Góðar stundir og góða nótt.


22/11 2007: Útlendingaeftirlit


Það eru fjórar tilkynningar í biðsal útlendingaeftirlitsins í Giessen, fjórar tilkynningar á fimm veggspjöldum, því ein er á tveimur tungumálum: Þýsku og Tyrknesku. Þetta eru einu uppsprettur einhvers konar upplýsinga í biðsalnum, við hliðina á vél sem úthlutar biðnúmerum er reyndar tímaritagrind en hún er tóm. Ég er númer 32, ég kom þrjár mínútur eftir að skrifstofan opnaði klukkan tvö síðdegis. Ég bíð þess að fá afhent vegabréfið mitt sem ég afhenti ásamt þar til gerðu skráningarblaði við hópskráningu erlendra stúdenta. Ég kemst bráðum að því að konan sem tók við því, sem er stór og þybbin, heitir Frau Klein. Hún situr við stórt skrifborð ásamt annarri konu sem ég kemst aldrei að hvað heitir og segir um leið og ég kem inn að hún hafi verið að bíða eftir þessum. Þegar ég segist vilja fá vegabréfið mitt til baka segir hún ,,Herra Einarsson, skráning yðar var ófullnægjandi. Hví hafið þér ekki skráð yður hjá skrifstofu bæjaryfirvalda?" Ég segist hafa staðið í þeirri meiningu að þetta væri skrifstofa bæjaryfirvalda og uppsker í fyrsta skiptið ítarlega lýsingu hvar hana er að finna og hvernig skuli standa að skráningu. En þangað til ég kemst að þessu bíð ég ásamt fulltrúum allra heimsálfa í teppalögðum biðsal. Það líða tvær klukkustundir. Ég hef gleymt að hafa með mér bók til að lesa. Ég hafði ekki gert ráð fyrir að þurfa að bíða. Konan við hliðina á mér hallar sér fram og grípur um höfuð sér. Það eru legókubbar við hliðina á skjánum sem birtir númer þess sem fær fær viðtal og í hvaða herbergi hann skuli mæta. 14 í herbergi 5, til dæmis. Tveir strákar, arabískir í útliti, og maður sem ég giska á að sé afi þeirra byggja turna úr legóinu og rífa þá jafnóðum niður aftur. Svo byrja þeir upp á nýtt. Frau Klein dregur fram myndina sem ég hef áður afhent henni og otar henni að mér. Henni finnst myndin óásættanleg, svona svarthvít og hlutföll andlits á móts við búk of lág. Aðspurð segir hún að ákveðin tegund af ljósmyndun sé ásættanleg og þriðji starfsmaður birtist úr nærliggjandi skrifstofu með stórt upprúllað plaggat sem hún sýnir mér. Nú sé ég hvernig góð passamynd líur út; án slæðu, án gleraugna, í lit, ekkert hár yfir andlitinu, maður horfir beint inn í vélina og brosir en það er ekki skylda. Á plaggatinu er strokað yfir ófullnægjandi passamyndir með rauðum kross. Á stóru veggspjaldi frammi í biðstofunni stendur að það sé bannað að reykja. Á minna spjaldi hægra megin við stendur hvaða ráðstafana ber að gæta a) til að koma í veg fyrir eldsvoða (t.d. með því að virða bann gegn reykingum) og b) hvernig ber að haga sér komi eldur upp. Á vinstri höndi er vinaleg tilkynning frá yfirvöldum að þau séu boðin og búin að hjálpa erlendum ríkisborgurum að koma aftur til síns heimalands eða í rauninni hvaða lands sem er í heiminum. Fjórða tilkynningin, þessi sem er á tveimur tungumálum, fer þess á leit við óbreytta borgara að þeir veiti aðstoð við að upplýsa einhvert af hinum fjölmörgu morðum sem framin hafa verið á síðustu misserum. Því er haldið fram að það hafi geysað morðfaraldur í landinu. Spjaldið er myndskreytt með korti af Þýskalandi þar sem merkt er inn á hvar morðin hafa verið framin og hversu margir hafa verið myrtir á hverjum stað. Til að undirstrika ógnina er mynd af byssu með hljóðdeyfi skeytt yfir kortið. Ég fyllist óhug, kannski er ég ekki eins öruggur og ég hélt. Ég spyr Frau Klein, um það bil sem ég stend upp, hvert sé markmið þessarar skráningar, hvort bakvið hana hvíli einhver tilgangur. Hún segir mér, laus við undrun, að ef ég ætli að búa í Þýskalandi vilji þau vita hvar ég sé, lögreglan vilji vita hvar ég sé. Mér er úthlutað viðtalstíma sex dögum seinna kl. 14.30. ,,Þarf ég að bíða" spyr ég.  ,,Nei, þér hringið bara bjöllunni og spyrjið um mig, Frau Klein." Ég læt því næst taka mynd af mér í sjálfsala, ég kýs að brosa ekki. Á skrifstofu bæjaryfirvalda fæ ég að gjöf ávísun fyrir bóksafnsskírteini á bæjarbókasafninu . Mig vantar einmitt bók. Ég tek út Ameríku eftir Kafka, hjóla heim, helli upp á og reyni að státa mig fram úr fyrstu blaðsíðunni.


10/11 2007: Mér skilst að Philatelie þýði frímerkjasafn

Ég fékk sent bréf frá þýsku póstþjónustunni sem hefst svo:

,,Weiden, þann 5. nóvember 2007

Mjög svo virðulegi póstþjónustu þegi,
vafalaust hafið þér með eftirvæntingu beðið eftir því - og nú er loksins komið að því:
Niðurstaða hinnar stóru ljósmyndasamkeppni Þýsku póstphílatílunar ,,Yðar blóm - yðar frímerki" liggur fyrir!

Hin opinbera fagdómnefnd hefur valið sigurmyndina úr þúsundum innsendum myndum. Blómafrímerki Þýskalands árið 2008 mun prýða hin undurfagra mynd ,,Hnappur" eftir Herra Marion Strasser frá Wiesbaden. Í meðfylgjandi bæklingi gefur að líta sigurmyndina."

Því næst er viðtakendum bréfsins kynnt tilboð á að fá send heim 13 fallegustu blómafrímerki síðustu ára gegn viðráðanlegri upphæð. Pósturinn gefur viðskiptavinum sínum þetta tækifæri sem þakklætisvott fyrir gríðalegan áhuga á keppnnni. Þá er farið nokkrum orðum um mikilvægi þess að skreyta frímerki á sem persónulegastan máta, t.d. með mótívum tengdum pólitík, íþróttum, viðskiptum, list og menningu:

,,...og af því erum við stollt. Hvert frímerki segir spennandi sögu" 

Undir bréfið skrifar framkvæmdastjóri Hins þýska frímerkjasafns, Jörg Meissner.


Hér gefur að líta sigurvegarann Herra Mario Strasser með sigurmyndina.


8/11 2007: Laufblástur

Ég ætlaði mér að sofa út í morgun en vaknaði við það um níuleytið að einhver bæjarstarfmaður þandi bensínmótorknúinn laufblásara hérna niðri á götu og var lengi að eins og hann væri þess fullviss að elju og iðjusemi gæti þannig feykt burt haustinu í eitt skiptið fyrir öll. Stundum er þessi bær mér framandi.


6/11 2007: Áfangi

Í dag þykir mér ég hafa tekið skref framávið í félagslegum þroska með því að hafa í fyrsta skipti hérlendis rétt upp hönd mína í tíma og látið ummæli falla, í þessu tilfelli um belgíska dansmynd; ég benti á að í myndinni væri fjallað um árekstra milli eðlis og siðmenningar og vitnaði að lokum í heimspekinginn Zizek sem segir að maður geti ekki verið fallus (þ.e. táknið óháð ytri birtingarmynd (karl)mannslíkamans), heldur búi maður yfir fallus, maður ávinnur sér hann með samþykki valdhafa, samþykki föðursins (einnig táknrænn), og þá veitir hann - fallusinn - aðgang að valdi og stöðu í falllógósentrísku kerfi, þ.e. maður táknar með þátttöku sinni í menningu stærri og víðari orðræðuheim sem gefur líkama óg sjálfi einstaklingsins merkingu út fyrir sjálfan, sjálf manns fær vægi sem skiljanleg og rökleg eining, en þetta rímaði einkar vel við textann sem var lagður fyrir, þar sem fjallað var um erfiðleika þess að skrifa um dans á fyrirbærafræðilegum forsendum án þess að hann væri um leið gæddur hegemónískum skilningi. Ummæli mín voru orðuð á Þýsku, ekki frábærri en voru engu að síður öllum í stofunni skiljanleg og var vel tekið sem gagnmerku innleggi í umræðuna.  


Friðgeir leggur sig fram við að taka þátt í þýsku samfélagi.

5/11 2007: Hamarhaust í Giessen



Verð nelgt niður úr öllu valdi í OBI þessa dagana. Þessi rotþró er meðal þess sem er á tilboði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband